Auðvelt að fjölga graslauk

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.11.55.png

Graslaukur er fjölær lauktegund sem auðvelt er að fjölga með skiptingu að vori eða hausti. Stingið plöntuna upp eða hluta hennar, toga rótina í sundur og fáið  þannig fjölda nýrra plantna. Í matseld eru bæði blöð og blóm notuð, laukbragðið er daufara af blómunum en blöðunum og eru þau falleg í salat og ýmsa rétti.

Sígræn og til skrauts allt árið

Í Fossheiðargarðinum þekja hnoðrar, steinbrjótar og húslaukur gróðurbeðin og tegundirnar eru í kerjum og pottum. Litbrigði tegunda innan ættkvíslanna eru einstök. Blaðlitir ná yfir allan grænskalann, rauða tóna og gula. Mismunandi blaðgerð og fegurð blómanna á einnig stóran þátt í því að menn hafa nýtt sér þessar ættkvíslir á listrænan hátt.

Sáning beint í matjurtagarðinn

Gulrætur, hnúðkál, klettasalat, mizunakál, næpur, pastinakka, radísur, salat, sinnepskál og spínat er ekki þörf á að forrækta og hægt er að sá þeim beint út í matjurtagarðinn í maí -júní. Salat, spínat og radísur eru dæmi um tegundir sem hægt að sá nokkrum sinnum yfir sumarið. Heppilegur jarðvegshiti við sáningu er talinn vera um 6-7°C. Sáð er í hæfilega raka mold og tryggja skal að jarðvegurinn þorni ekki meðan fræin eru að spíra.

Nýtt útlit - glæsilegt blað

SG_4tbl_2017.jpg

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn tók nokkrum stakkaskiptum við útkomu haustblaðsins okkar, 4. tbl. 2017, þar sem nýr útlitshönnuður hefur tekið við útlitshönnun blaðsins. Það er Sóley Stefánsdóttir grafískur hönnuður sem hefur tekið við því starfi sem Páll Jökull hefur sinnt síðustu 20 árin við umbrot tímaritsins. Við sjáum nú þegar nokkrar breytingar og aðrar áherslur sem fylgja nýjum starfskrafti, en Sóley hefur í fjölda ára haft mikinn áhuga á umhverfismálum. 

Ein af breytingunum sem hafa nú þegar orðið er að við skiptum um pappír, erum nú með aðeins þykkari, mattan pappír sem þykir hafa umhverfisvænna yfirbragð.

Við hlökkum til að fá að vinna með Sóleyju við að gera blaðið okkar ennþá betra og fallegra.

Mosi í görðum

Mosinn (Bryophyta) dafnar vel í sumarbyrjun. Hann vex við allt að 4°C hita og er því að spretta löngu áður en grasið fer af stað á vorin og verður þá áberandi í grasfletinum. Mosinn þrífst vel í skugga og þéttum jarðvegi. Ef mönnum líkar ekki mosinn þá er lag að raka hann úr sverðinum og setja í safnhauginn þar sem hann umbreytist í mold. Sé jarðvegurinn þjappaður þykir gott að stinga með stungugafli í svörðinn til að mynda holrými sem fyllt er með fínum sandi til að auka loftun í sverðinum. Svo er lag að kalka flötinn og bera á grasið alhliða áburð til að auka grassprettuna og efla ræturnar.

Æt Blóm og kryddplöntur

Fátt er betra en nýupptekið krydd beint úr garðinum á steikurnar, í pottrétti og í salöt ásamt ætum blómum. Sumarið er tíminn til að rækta krydd í pottum á svölunum, á pallinum eða úti í beði. Kaupið forræktaðar plöntur og raðið þeim saman og njótið þess að ná ykkur í ferskt krydd í matinn. Svo fegrið þið salatið með ætum blómum af skjaldfléttu, begoníu og brúsku og skreytið kökurnar með  fjólum og stjúpum. Möguleikarnir eru margir, kjósir þú bláan lit þá eru allar klukkur ætar og þar er hægt að velja úr bláum litatónum. Fjólublá blóm graslauksins eru æt og bera keim af graslauk, þau eru falleg með appelsínulituðum blómum morgunfrúarinnar í salatið.