Garðverkin í mars og apríl

Texti: Auður I. Ottesen. Myndir: Páll Jökull

Við búum í harðbýlu landi og höfum undanfarið fengið að finna fyrir þrautum þorrans og góunnar með stormi og snjókomu. Veðurviðvaranir með gulum og appelsínurauðum lit á veðurkortinu hafa verið nokkuð algengar og drjúgur tími hefur farið í að moka snjó og skafa hrímið af bílrúðunum. Í öllum látunum er náttúran í vetrardvala. Til að garðaflóran beri ekki skaða þá getum við hlúð að því viðkvæmasta, með því að setja greinar yfir smáplöntur og sveipað striga, til að verja sígræna runna fyrir sterkri vorsólinni.

Mars og apríl er forræktunartími sumarblóma, krydd- og matjurta. Hér er listi yfir nokkrar þeirra tegundir matjurta og sumarblóma sem sáð er til í mars og apríl. Sáð er við stofuhita en ræktunarhitastig smáplantnanna er 12-17°C hiti. Ef hitastigið í ræktuninni er of hátt hættir plöntunum til að spíra, sem þær gera einnig ef birtan er ekki næg.

Sáning í mars:

Fagurfífill (Bellis perennis)
Brúðarauga (Lobelia erinus)
Frúarhattur (Rudbeckia hirta)
Meyjablómi (Godetia grandiflora)
Brúðarstjarna (Cosmos bipinnatus)
Daggarbrá (Leucanthemum paludosum)
Hádegisblóm (Dorotheanthus bellidiformis)
Skógarmalva (Malva sylvestris)
Sólblóm (Helianthus annuus)
Skjaldflétta (Tropaeolum majus)
Rósmarín (Rosmarinus officinalis)
Salvía (Salvia officinalis)
Blaðlaukur (Allium ampeloprasum var. porrum)
Majoram (Origanum majorana)
Lavender (Lavandula angustifolia)
Garðablóðberg (Thymus vulgaris)
Bergmynta (Origanum vulgare)
Sítrónumelissa (Melissa officinalis)
Stilksellerí (Apium graveolens)
Vorlaukar (Allium fistulosum)
Tómatar (Solanum lycopersicum)
Chili-pipar (Capsicum)

Sáning í apríl:
Káltegundir (Brassica oleracea)
Gúrkur (Cucumis sativus)
Salattegundir (Lactuca sativa)
Basilika (Ocimum basilicum)
Aftanroðablóm (Lavatera trimestris)
Fiðrildablóm (Nemesia strumosa)
Ilmskúfur (Matthiola incana var. annua)
Skrautnál (Alyssum maritimum)
Steinselja, hrokkin og slétt (Petroselinum crispum)

 

Hugum að smáfuglunum í frostinu
Á veturna bítur frostið og vindur gnauðar. Smáfuglarnir eiga þá oft erfiða daga og skortir vatn og mat. Fita gefur þeim orku í kuldanum og er því gustuk að gefa þeim brauðmola vætta úr olíu eða fituafskurð af kjöti. Þröstur og starri gæða sér á eplum og rúsínum og auðnutittlingurinn kýs.

Rabarbarinn bleiktur
Víða tíðkast erlendis á vorin að setja stóran pott yfir rabarbarann þegar hann er um það bil að hefja vöxt. Í myrkrinu verða leggirnir rauðleitir og sætari á bragðið og það er ljúft að laga sér rabarbarasúpu um miðjan maí.

Vorlaukar ódýrir gleðigjafar EÐA Ódýrir vorlaukar, góðir gleðigjafar
Fyrir fagurkerana er svo lag að splæsa á sig nokkrum vorlaukum, dalíum, anímónum og liljum. Ódýrari blóm fást varla og það er algert yndi að fylgjast með þeim vaxa upp í eldhúsglugganum á meðan maður bíður eftir því að það verði nógu heitt til að nota stuttbuxurnar og skunda út í garð og gróðursetja þær í sumarylnum.

Að láta kartöflurnar forspíra
Til að tryggja góða uppskeru í kartöfluræktun þá eru kartöflurnar látnar spíra í 6 vikur á björtum stað áður en þær eru settar niður í beð. Hyggilegt er að setja kartöflurnar niður þegar hitinn í jarðveginum í kartöflubeðinu hefur náð 7-8°C. Ég hef það eftir sérfræðingi að lítið gerist hjá kartöflunum liggi þær í köldum jarðvegi, eini ávinningurinn væri frekari líkur á sjúkdómum.

Skerpa klippur og snyrta runna
Á þessum árstíma er tímabært að hugleiða hvaða trjágróður og runna þarf að snyrta og brýna verkfærin. Beittar klippur gefa hreinan skurð og sár gróða fyrr og svo minnka þær líkur á sveppasýkingu í trjánum. Alltaf ætti þó að þrífa og sótthreinsa klippur vel áður en farið er í snyrtingar. Hentugast er að klippa limgerði A-laga því þá er limgerðið breiðast neðst og mjókkar eftir því sem ofar dregur.