Æt Blóm og kryddplöntur

Fátt er betra en nýupptekið krydd beint úr garðinum á steikurnar, í pottrétti og í salöt ásamt ætum blómum. Sumarið er tíminn til að rækta krydd í pottum á svölunum, á pallinum eða úti í beði. Kaupið forræktaðar plöntur og raðið þeim saman og njótið þess að ná ykkur í ferskt krydd í matinn. Svo fegrið þið salatið með ætum blómum af skjaldfléttu, begoníu og brúsku og skreytið kökurnar með  fjólum og stjúpum. Möguleikarnir eru margir, kjósir þú bláan lit þá eru allar klukkur ætar og þar er hægt að velja úr bláum litatónum. Fjólublá blóm graslauksins eru æt og bera keim af graslauk, þau eru falleg með appelsínulituðum blómum morgunfrúarinnar í salatið.