Sáning beint í matjurtagarðinn

Gulrætur, hnúðkál, klettasalat, mizunakál, næpur, pastinakka, radísur, salat, sinnepskál og spínat er ekki þörf á að forrækta og hægt er að sá þeim beint út í matjurtagarðinn í maí -júní. Salat, spínat og radísur eru dæmi um tegundir sem hægt að sá nokkrum sinnum yfir sumarið. Heppilegur jarðvegshiti við sáningu er talinn vera um 6-7°C. Sáð er í hæfilega raka mold og tryggja skal að jarðvegurinn þorni ekki meðan fræin eru að spíra.

Uppskeran í hús

Auður með uppskeruna úr grenndargarðinum á eldhúsborðinu.

Við sem ræktum grænmeti, krydd og skrúðmeti erum lukkunnar pamfílar. Haustið er sá tími sem húsið fyllist af grænmeti. Kartöflurnar fara í rimlakassa og eru geymdar í bílskúrnum þar sem hitinn fer ekki niður fyrir 4°C. Gulrætur og annað rótargrænmeti er sett í kassa umlukið sandi og geymast á svölum stað. Káltegundir er gott að súrsa eða sjóða niður. Kálið gufusýð ég í 2-4 mínútur og snöggkæli undir kaldri vatnsbunu áður en ég set í frysti. Stilksellerí þurrfrysti ég. Krydd ýmist þurrka ég eða frysti í vatnsteningum. Fátt jafnast á við góðan vetraforða og aðgengi að eigin grænmeti.