Sígræn og til skrauts allt árið

Í Fossheiðargarðinum þekja hnoðrar, steinbrjótar og húslaukur gróðurbeðin og tegundirnar eru í kerjum og pottum. Litbrigði tegunda innan ættkvíslanna eru einstök. Blaðlitir ná yfir allan grænskalann, rauða tóna og gula. Mismunandi blaðgerð og fegurð blómanna á einnig stóran þátt í því að menn hafa nýtt sér þessar ættkvíslir á listrænan hátt.

Nýtt útlit - glæsilegt blað

SG_4tbl_2017.jpg

Tímaritið Sumarhúsið og garðurinn tók nokkrum stakkaskiptum við útkomu haustblaðsins okkar, 4. tbl. 2017, þar sem nýr útlitshönnuður hefur tekið við útlitshönnun blaðsins. Það er Sóley Stefánsdóttir grafískur hönnuður sem hefur tekið við því starfi sem Páll Jökull hefur sinnt síðustu 20 árin við umbrot tímaritsins. Við sjáum nú þegar nokkrar breytingar og aðrar áherslur sem fylgja nýjum starfskrafti, en Sóley hefur í fjölda ára haft mikinn áhuga á umhverfismálum. 

Ein af breytingunum sem hafa nú þegar orðið er að við skiptum um pappír, erum nú með aðeins þykkari, mattan pappír sem þykir hafa umhverfisvænna yfirbragð.

Við hlökkum til að fá að vinna með Sóleyju við að gera blaðið okkar ennþá betra og fallegra.

Veturinn gengur í garð

Litríkur vetrarmorgun á Selfossi, lognið á undan storminum þar sem fyrsti alvöru vetrarstormurinn er yfirvofandi. Garðurinn okkar í Fossheiði 1 er kominn í vetrarbúning, síðustu laufin eru að falla og ein stök rós stendur ennþá og býður frostinu birginn. Tjörnin er frosin með litríkum laufum eins og sýningarskápur fyrir liðið haust. Vínberin í gróðurhúsinu hafa náð fullum þroska, en verða kannski ekki að rauðvíni þetta árið. Ég skutlaði garðhúsgögnunum inn til þess að þau fari ekki á flug þegar lægðin gengur yfir seinnipartinn, minni ykkur á að gera slíkt hið sama.