Veturinn gengur í garð

Litríkur vetrarmorgun á Selfossi, lognið á undan storminum þar sem fyrsti alvöru vetrarstormurinn er yfirvofandi. Garðurinn okkar í Fossheiði 1 er kominn í vetrarbúning, síðustu laufin eru að falla og ein stök rós stendur ennþá og býður frostinu birginn. Tjörnin er frosin með litríkum laufum eins og sýningarskápur fyrir liðið haust. Vínberin í gróðurhúsinu hafa náð fullum þroska, en verða kannski ekki að rauðvíni þetta árið. Ég skutlaði garðhúsgögnunum inn til þess að þau fari ekki á flug þegar lægðin gengur yfir seinnipartinn, minni ykkur á að gera slíkt hið sama.