Veturinn gengur í garð

Litríkur vetrarmorgun á Selfossi, lognið á undan storminum þar sem fyrsti alvöru vetrarstormurinn er yfirvofandi. Garðurinn okkar í Fossheiði 1 er kominn í vetrarbúning, síðustu laufin eru að falla og ein stök rós stendur ennþá og býður frostinu birginn. Tjörnin er frosin með litríkum laufum eins og sýningarskápur fyrir liðið haust. Vínberin í gróðurhúsinu hafa náð fullum þroska, en verða kannski ekki að rauðvíni þetta árið. Ég skutlaði garðhúsgögnunum inn til þess að þau fari ekki á flug þegar lægðin gengur yfir seinnipartinn, minni ykkur á að gera slíkt hið sama.

 

Get ég notað laufin eitthvað?

Laufið er fjársjóður.

Laufið er fjársjóður.

Laufið er notadrjúgt
Er laufin fara að falla þá er gott að raka þau af grasfletinum og setja í beðin til að hylja mold og skýla viðkvæmum plöntum. Eins að setja laufblöðin í moltugerðarkassann eða grafa niður í beðin til að láta þau moðna þar og breytast í jarðveg. Þar verða þau að fyrsta flokks fæði fyrir ánamaðkana og örverur sem launa örlætið með úrgangi sínum sem er svo til gagns fyrir rætur sem næring.

Skjól gert með striga.

Skjól gert með striga.

Hlúa að því viðkvæma
Farsælt er að skýla viðkvæmum plöntum, því sem er nýgróðursett og ungum sígrænum plöntum. Tré sem eru nýgróðursett þurfa stuðning og gott er að festa þau á þrjá vegu við stoðir svo að ræturnar, sem eru að festa sig á nýjum stað, rifni ekki lausar.

Könglar broddfuru.

Könglar broddfuru.

Fræ úr reklum og könglum
Inni í könglum sígrænna tegunda eru fræ og í reklum birkis og elritrjáa. Fræ af þessum tegundum þurrkar maður við stofuhita í nokkra daga og geymir svo í ísskáp til vorsins og sáir þá.