Auðvelt að fjölga graslauk

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.11.55.png

Graslaukur er fjölær lauktegund sem auðvelt er að fjölga með skiptingu að vori eða hausti. Stingið plöntuna upp eða hluta hennar, toga rótina í sundur og fáið  þannig fjölda nýrra plantna. Í matseld eru bæði blöð og blóm notuð, laukbragðið er daufara af blómunum en blöðunum og eru þau falleg í salat og ýmsa rétti.

Sáning beint í matjurtagarðinn

Gulrætur, hnúðkál, klettasalat, mizunakál, næpur, pastinakka, radísur, salat, sinnepskál og spínat er ekki þörf á að forrækta og hægt er að sá þeim beint út í matjurtagarðinn í maí -júní. Salat, spínat og radísur eru dæmi um tegundir sem hægt að sá nokkrum sinnum yfir sumarið. Heppilegur jarðvegshiti við sáningu er talinn vera um 6-7°C. Sáð er í hæfilega raka mold og tryggja skal að jarðvegurinn þorni ekki meðan fræin eru að spíra.

Nammi gott með salati og eggjasnafs

Er ég var barn útbjó móðir mín heimsins besta sumarrétt sem við systkinin höfðum mikið dálæti á. Eggjasnafssúrmjólk með salati og ávöxtum. Þeir sem hafa ræktað salat í sumar ættu að prófa og nóg er úrvalið af salati í verslunum þessa dagana. Það sem mamma notaði í réttinn var höfuð af blaðsalati, 2 egg sem voru hrærð með 2 matskeiðum af sykri þar til blandan var freyðandi og 7 dl. af súrmjólk. Auk þessa allskyns ávextir sem til eru hverju sinni. Brytjað salat er sett í fallega víða skál, súrmjólkur eggjasnafsi er helt yfir og ofaná eru sett bláber, epli, vínber eða þeir ávextir sem þér þykir bestir.

Blómlegt salat

Til að fegra og bragðbæta salatið og matinn er skemmtilegt að nota æt blóm í ýmsum litum. Stjúpur og morgunfrú ásamt skjaldfléttu, fjólu, begoníu og brúsku eru dæmi um æt blóm sem nota má. Svo getur maður valið litinn því kjósir þú bláan þá eru allar klukkur ætar og þar er hægt að velja úr bláum litatónum. Hér að ofan eru myndir af blómunum sem talin eru upp.

Sá salati og spínati aftur og aftur

Njótið þess að rækta salat og spínat í sumar. Þessar tegundir eru auðveldar í ræktun og hægt er að sá til þeirra nokkrum sinnum yfir sumarið. Þá er líka flott að sá radísum en þær, eins og hinar tegundirnar, eru með stuttan vaxtartíma. Spínatið sprettur á 5-6 vikum, salat á 7-9 vikum og radísur þurfa um 5-8 vikur.