Sumarklipping

Í sprettunni er lag að formklippa limgerðin til að halda lögun þeirra og eftir að blómgun líkur má huga að snyrtingu runna sem blómgast á greinar sem uxu á síðasta ári. Birkikvistur og sigurkvistur eru dæmi um tegundir sem blómstra á tveggja ára greinum og flestar runnarósir eiga það sameiginlegt með þeim.

Með steinum fæst náttúrlegt yfirbragð í garðinn og ef þeir eru í stærra lagi fanga þeir athygli barna sem leiksvæði til að príla í. Með þeim má móta landslag, nota þá til stuðnings við upphækkuð beð og til að fanga sólarylinn sem þeir gefa svo frá sér er kólnar á næturnar. Í æta hraukbeði sýningar- og kennslugarðs Sumarhússins og garðsins er 1,5 tonna steinn sem fluttur var í garðinn í vor.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.32.08.png

Slöngusúra (Polygonum bistorta ssp. carneum) er ágætis matplanta. Blöðin eru með súrum keim og góð í salöt og steikt eða léttsoðin. Meyjarsköldur (Ligularia dentata) með sín fallegu dökku blöð er líka ætur. Leggirnir sem vaxa upp á vorin eru notaðir í matseld.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.33.34.png

Í júlí er blaðvöxtur í hámarki og er líða tekur á mánuðinn og í ágúst þroskast aldin og ber og undir lok ágúst þroskast brumin og plönturnar ljúka vexti. Þá tekur rótarkerfið við sér og það er tilvalinn tími til að nýta í flutning á trjám og runnum. Vanda þarf til verksins, ef verið er að flytja eldri tré og runna þá þarf að rótarstinga kringum plöntuna að vori eða jafnvel árið áður. Rótarhnausinn sem fylgir plöntunni þarf að vera í samræmi við stærð hennar og stingið hann varlega upp þannig að moldin losni sem minnst frá rótunum.

Skærmbillede 2018-07-31 kl. 15.35.48.png

Túlípanalaukar setja fallegan svip á beðin er þeir eru í blóma í júní og júlí. Blöð og blóm eru æt og er tilvalið að nýta nokkur blöð og blóm í matseld. Varist að taka öll blöðin því laukurinn þarfnast þeirra til stækkunar og þroska. Er blómin falla og blöðin verða rytjuleg er tilvalið að hafa sáð salatfræum og rækta salat í sama beði. Það vex svo langt fram á haust og hylur túlipanablöðin.