Vel heppnuð sumarhátíð Sumarhússins og garðsins - Takk fyrir komuna.

Sumarhátíð Sumarhússins og garðsins “Stefnumót við Múlatorg var haldin Laugardaginn 27. júlí. Öllum áskrifendum, velunnurum og landsmönnum var boðið að koma og njóta sumarhátíðarinnar í Fossheiðargarðinum sem var í sumarskrúða. Hljómsveitin Skorsteinn lék evrópsk þjóðlög sem ómaði yfir markaðinn þar sem versla mátti vandaða listmuni og handverk. Markaðurinn var vel sóttur og lögðu mörg hundruð manns leið sína á Selfoss, Fossheiði 1 þar sem Sumarhúsið og garðurinn er með höfuðstöðvar.

Gestir gátu lært um hænsnarækt í heimagarðinum af tveimur fróðustu hænsnaræktendum landsins og fengið ráðgjöf frá Líflandi með aðbúnað til hænsnaræktunar. Lífrænar varnir í gróðurhúsum voru til sýnis og Býflugnaræktendafélag Íslands sagði frá hunangsframleiðslu á Íslandi og býrækt. Hægt var að gæða sér á pönnukökum frá Pönnukökuvagninum og Pylsuvagninn á Selfossi seldi sínar landsþekktu pylsur í pylsukrílinu sínu. Ljósmyndari blaðsins Páll Jökull Pálsson setti upp ljósmyndasýningu á blómunum úr Fossheiðargarðinum ásamt landslagsmyndum úr náttúru Íslands.

Pottaplöntubarinn sló í gegn og mikill fjöldi kom með pottaplöntur til að býtta við næsta mann á hátíðinni. Boðið var upp á umpottun á pottaplöntum og var hægt að fjárfesta í mold og pottum á staðnum á hagstæðu verði. Gestir gátu einnig fjárfest í pottaplöntum á hagstæðu verði frá Garðyrkjustöðinni Flóru í Hveragerði.

Í ár veitti Sumarhúsið og garðurinn í fyrsta sinn hvatningaverðlaunin "Rósina". Hún er veitt þeim sumarhúsaeigendum eða garðáhugamönnum sem sýnt hafa framúrskarandi hugmyndaauðgi og elju. Rósina 2019 fengu hjónin Kristrún Sigurðardóttir og Símon I Ólafsson sem eiga sumarbústað í Kjósinni og hafa ræktað og skapað þar síðan 1972 með þrautseigju, hæfni og hugmyndaauðgi og náð undraverðum árangri.

Takk fyrir komuna og sjáumst 18. júlí 2020.