Vorverkin í garðinum

Morgunfrú Fossheiði 1_blóm_20180813_DSC1196.jpg

Það minnir æði margt á að vorið sé á næsta leiti, þessir sífelldu umhleypingar. Veðurguðirnir virðast eiga í mesta basli að ákveða ríkjandi vindáttir eða veðurfar. En í slíkum veðrum er vissara að huga vel að garðinum og fuglunum sem hann sækja. Tryggja þarf viðkvæmum trjám og fjölæringum farborða inn í sumarið og undirbúa hvað skal rækta.

MARS:

Stari að borða epli_MG_0135 (1).jpg

Gefið smáfuglum

Í vetrarfrosti og gaddi eiga smáfuglar erfitt uppdráttar og þurfa mikla orku til að halda sér heitum. Gott er að blanda dýrafitu eða olíu samanvið matarafgangana eða fræin. Ávexti eins og epli eða perur er skynsamlegt að hengja á trjágrein eða staur til að þeir fái tíma til að kroppa.

 
Sitkagreni limgerði (1).jpg

Skerpa klippur og snyrta runna

Nú er tíminn til að snyrta limgerði og runna. Beittar klippur gefa hreinan skurð sem grær fyrr og minnkar líkur á að ránsveppir komist inn í sárin. Alltaf ætti þó að þrífa og sótthreinsa klippur vel áður en farið er í snyrtingar. Hentugast er að klippa limgerði A-laga, þá er limgerðið breiðast neðst og mjókkar eftir því sem ofar dregur.

 
Fjóla Fossheiði 1_blóm_20180813_DSC1217.jpg

Forrækta sumarblóm og matjurtir

Fjölmargar tegundir sumarblóma og matjurta er skynsamlegt að setja niður í mars til að blómstur og uppskera sé tilbúin í sumarbyrjun. Kynnið ykkur sáningartíma vel til að vera nægilega snemma í því. Gott er að setja niður tómata og chili-pipra í mars til að ná fyrstu uppskeru í byrjun sumars.

 
Skýling__DSC5363.jpg

Hugið að sígrænu plöntunum

Þegar frost er í jörðu ná rætur sígrænna plantna ekki að taka upp neitt vatn. Þegar sólin skín og vindurinn gnauðar á plöntuna geta barrnálar þornað upp og orðið brúnleitar. Þar sem ungplöntur eru viðkvæmastar ætti því að skýla þeim á veturna fyrstu árin eftir útplöntun með léttum strigapokum eða öðru hentugu. Ef þú gleymdir því síðasta haust er tímabært að setja yfir þær núna.

 
Kartöflur settar niður_270507_CRW_0189.jpg

Látið kartöflurnar spíra

Kartöflur þurfa 4-6 vikur á björtum stað til að spíra, varist þó beina sól. Ekki ætti að setja kartöflur of snemma niður í jarðveginn heldur ætti jörð að vera orðin volg (7-8°C) til að plönturnar nái sér strax á strik. Heppilegur tími er í maí og jafnvel byrjun júní.

 

APRÍL:

Rabarbari_%27Udine%27_20110405_MG_9081.jpg

Bleikur rabarbari

Nú er tíminn til að skýla fyrstu rabarbarasprotunum með stórum leirpott eða svipaðri yfirbreiðslu. Með því að útiloka sólarljósið verða sprotarnir sætari og bragðbetri. Hvað er betra en sæt rabbarbarasúpa til að fagna vorkomunni.

 
IMG_2559.JPG

Forræktun matjurta

Forrætkun mat- og kryddjurta er misjöfn eftir tegundum. Sem dæmi þá þurfa gúrkur, káltegundir og fjölmargar kryddjurtir 4-6 vikna forræktunartíma. Ef gúrkurnar eiga að fara út í kalt gróðurhús þarf að tryggja að næturhitinn fari ekki undir 15°C. Gott er að skýla þeim með akrýldúk til að vernda ung blöð gegn kulda og sólbruna. Kálplöntur er hægt forrækta innandyra í góðri birtu. Þær þrífast þó best við örlítið svalari aðstæður 15-20°C. Hægt er að planta út í beð um mánaðarmótin maí-júní. Það er skynsamlegt er að setja akrýldúk yfir kálplönturnar fyrstu vikurnar eftir útplöntun.