Kartöflur

Nú er tíminn til að pota kartöflunum niður. Brýnt að nota viðurkennt útsæði og freistast ekki til að nota kartöflur sem keyptar eru í matvöruverslunum. Bakteríur, sveppir og vírusar geta gert usla í ræktuninni. Nokkrir bændur á Íslandi rækta útsæðiskartöflur undir eftirliti til að tryggja að neytendur eigi aðgang að góðu útsæði án sjúkdóma. Til að flýta fyrir þá eru kartöflur látnar spíra í 4-6 vikur í birtu en ekki beinni sól. Hefðbundið kartöflubeð er stungið upp, gott að auka frjósemi jarðvegsins með hrossaskít um 4 skóflum af skít eða um einn lítra af hænsnaskít á hvern fermetra. Til að fullnægja áburðarþörfina ef kosin er lífræn ræktun þá er til bóta að koma á mót við snefilefnaþörfina með með 1-2 lítra af þörungamjöl á hvern fermetra. Kjósi menn að nota Blákorn þá inniheldur kyrnið öll þau næringarefni sem kartaflan þarfnast, Borið er 2-3 á yfir sumarið um 3 matskeiðar á hvern fermetra. 

Gott er að hafa í huga eftirfarandi:

  • Of lítið köfnunarefni dregur úr uppskeru
  • Of mikið köfnunarefni kartöflugrösin verða stór og undirvöxtur lítill. Þurrefnið í þeim minnkar.
  • Kalí eykur uppskeru. Of mikið minnkar þurrefni. 
  • Kalísúlfat hentar kartöflum, ekki kalíklórid.
  • Aukið fosfór eykur þurrefnisinnihald og þar með gæði kartafla.
  • Kalk er að öllu jöfnu ekki borið á kartöflugarða.

Millibil 25-35 sm milli kartaflanna og 35-50 sm milli raða. Gott er að setja nýslegið gras yfir moldina til að hindra vöxt illgresis. Svo ber að hafa í huga til að forðast jarðvegsþreytu og sjúkdóma að rækta kartöflur ekki lengur en 4-5 ár á sama stað.