Fyrirheit um fagurt vor

Fjallareynir (Sorbus Commixta) er fallegur í haustlitum.

Fjallareynir (Sorbus Commixta) er fallegur í haustlitum.

Haustið er dásamlegur tími, náttúran breytir um lit úr grænu í fagurgula tóna, roðarauða og koparlita. Svo fer laufið að falla sem sæng yfir lággróðurinn og við potum niður haustlaukunum, túlípönum, páskaliljum og krókusum. „Haustlaukarnir eru fyrirheit um fagurt vor,“ sagði Hafsteinn Hafliða, er hann vann í Blómaval sem þá var við Sigtún, og er það hárrétt.

Haustlaukar – nú er tíminn
Laukarnir eru settir niður að hausti til að þeir nái að ræta sig og svo þurfa þeir flestir kaldörvun til að geta skotið út vaxtarsprotanum er hlýnar að vori. Niðursetning laukanna er einföld. Þumalputtareglan segir að dýptin niður í moldina eigi að samsvara tvisvar til þrisvar sinnum stærð lauksins en laukarnir geta verið misstórir eftir tegundum. Bilið á milli þeirra er haft svipað og fallegt þykir að setja þá í þyrpingar svo blómskrúð fá notið sín betur. 

Haustið er besti tíminn til að setja niður hvítlaukinn.

Haustið er besti tíminn til að setja niður hvítlaukinn.

Hvítlaukur auðræktanlegur á Íslandi
Ég hvet þá sem ekki hafa prófað að rækta hvítlauk til að prófa. Fáanleg eru í garðyrkjuverslunum harðgerð hvítlauksyrki sem henta vel til ræktunar hér á landi. Sjálf er ég að prófa 8 ný yrki en ég hef ræktað hvítlauk í nokkur ár með góðum árangri. Hvítlaukurinn er settur niður á haustin eins og túlípanalaukarnir, því hvítlaukurinn þarf kaldörvun til að mynda rif. Veljið skjólgóðan og sólríkan stað með djúpunninni, loftríkri og frjórri mold. Útsæðislaukurinn er tekinn í sundur og stærstu rifin notuð til framhaldsræktunar. Hvítlaukurinn þarf að fara 8-10 cm niður og milli þeirra og raða er heppilegt að vera með 10 cm.