Veturinn gengur í garð

Litríkur vetrarmorgun á Selfossi, lognið á undan storminum þar sem fyrsti alvöru vetrarstormurinn er yfirvofandi. Garðurinn okkar í Fossheiði 1 er kominn í vetrarbúning, síðustu laufin eru að falla og ein stök rós stendur ennþá og býður frostinu birginn. Tjörnin er frosin með litríkum laufum eins og sýningarskápur fyrir liðið haust. Vínberin í gróðurhúsinu hafa náð fullum þroska, en verða kannski ekki að rauðvíni þetta árið. Ég skutlaði garðhúsgögnunum inn til þess að þau fari ekki á flug þegar lægðin gengur yfir seinnipartinn, minni ykkur á að gera slíkt hið sama.

 

Gróðursetning góð á haustin

Haustið er góður tími til að gróðursetja tré og runna. Ólafur Njálsson garðyrkjusérfræðingur segir 110% ávinning af því að gróðursetja plöntur er fer að hausta. Ástæðan er sú að seinni part sumars og á haustin vaxa rætur plantna einna mest. Ofanvöxtur er hættur, öll næring sem framleidd er í blöðunum fer niður í rætur. Ástæðan er svo ekki síður sú að á vorin er gróður tilbúinn að vaxa strax og hlýnar í mars, apríl og maí sem er það forskot sem skilar sér í betri sumarvexti plöntunnar.

Get ég notað laufin eitthvað?

Laufið er fjársjóður.

Laufið er fjársjóður.

Laufið er notadrjúgt
Er laufin fara að falla þá er gott að raka þau af grasfletinum og setja í beðin til að hylja mold og skýla viðkvæmum plöntum. Eins að setja laufblöðin í moltugerðarkassann eða grafa niður í beðin til að láta þau moðna þar og breytast í jarðveg. Þar verða þau að fyrsta flokks fæði fyrir ánamaðkana og örverur sem launa örlætið með úrgangi sínum sem er svo til gagns fyrir rætur sem næring.

Skjól gert með striga.

Skjól gert með striga.

Hlúa að því viðkvæma
Farsælt er að skýla viðkvæmum plöntum, því sem er nýgróðursett og ungum sígrænum plöntum. Tré sem eru nýgróðursett þurfa stuðning og gott er að festa þau á þrjá vegu við stoðir svo að ræturnar, sem eru að festa sig á nýjum stað, rifni ekki lausar.

Könglar broddfuru.

Könglar broddfuru.

Fræ úr reklum og könglum
Inni í könglum sígrænna tegunda eru fræ og í reklum birkis og elritrjáa. Fræ af þessum tegundum þurrkar maður við stofuhita í nokkra daga og geymir svo í ísskáp til vorsins og sáir þá.

Fyrirheit um fagurt vor

Fjallareynir (Sorbus Commixta) er fallegur í haustlitum.

Fjallareynir (Sorbus Commixta) er fallegur í haustlitum.

Haustið er dásamlegur tími, náttúran breytir um lit úr grænu í fagurgula tóna, roðarauða og koparlita. Svo fer laufið að falla sem sæng yfir lággróðurinn og við potum niður haustlaukunum, túlípönum, páskaliljum og krókusum. „Haustlaukarnir eru fyrirheit um fagurt vor,“ sagði Hafsteinn Hafliða, er hann vann í Blómaval sem þá var við Sigtún, og er það hárrétt.

Haustlaukar – nú er tíminn
Laukarnir eru settir niður að hausti til að þeir nái að ræta sig og svo þurfa þeir flestir kaldörvun til að geta skotið út vaxtarsprotanum er hlýnar að vori. Niðursetning laukanna er einföld. Þumalputtareglan segir að dýptin niður í moldina eigi að samsvara tvisvar til þrisvar sinnum stærð lauksins en laukarnir geta verið misstórir eftir tegundum. Bilið á milli þeirra er haft svipað og fallegt þykir að setja þá í þyrpingar svo blómskrúð fá notið sín betur. 

Haustið er besti tíminn til að setja niður hvítlaukinn.

Haustið er besti tíminn til að setja niður hvítlaukinn.

Hvítlaukur auðræktanlegur á Íslandi
Ég hvet þá sem ekki hafa prófað að rækta hvítlauk til að prófa. Fáanleg eru í garðyrkjuverslunum harðgerð hvítlauksyrki sem henta vel til ræktunar hér á landi. Sjálf er ég að prófa 8 ný yrki en ég hef ræktað hvítlauk í nokkur ár með góðum árangri. Hvítlaukurinn er settur niður á haustin eins og túlípanalaukarnir, því hvítlaukurinn þarf kaldörvun til að mynda rif. Veljið skjólgóðan og sólríkan stað með djúpunninni, loftríkri og frjórri mold. Útsæðislaukurinn er tekinn í sundur og stærstu rifin notuð til framhaldsræktunar. Hvítlaukurinn þarf að fara 8-10 cm niður og milli þeirra og raða er heppilegt að vera með 10 cm.

Sveppagró á flögri á haustin

Ryð í alaskaösp.

Ryð í alaskaösp.

Sveppagró, sem eru smitberar fjölmargra sveppasjúkdóma í gróðri, berast með loftinu síðsumars og á haustin. Því er óheppilegt að klippa trjágróður og runna því sveppir eiga greiða leið í opin sár sem gróa ekki að fullu fyrr en nýtt vaxtartímabil hefst næsta vor. Heppilegast er að klippa trjágróður seinni hluta vetrar og snemma á vorin, frá febrúar og fram í byrjun maí.

Nammi gott með salati og eggjasnafs

Er ég var barn útbjó móðir mín heimsins besta sumarrétt sem við systkinin höfðum mikið dálæti á. Eggjasnafssúrmjólk með salati og ávöxtum. Þeir sem hafa ræktað salat í sumar ættu að prófa og nóg er úrvalið af salati í verslunum þessa dagana. Það sem mamma notaði í réttinn var höfuð af blaðsalati, 2 egg sem voru hrærð með 2 matskeiðum af sykri þar til blandan var freyðandi og 7 dl. af súrmjólk. Auk þessa allskyns ávextir sem til eru hverju sinni. Brytjað salat er sett í fallega víða skál, súrmjólkur eggjasnafsi er helt yfir og ofaná eru sett bláber, epli, vínber eða þeir ávextir sem þér þykir bestir.

Uppskeran í hús

Auður með uppskeruna úr grenndargarðinum á eldhúsborðinu.

Við sem ræktum grænmeti, krydd og skrúðmeti erum lukkunnar pamfílar. Haustið er sá tími sem húsið fyllist af grænmeti. Kartöflurnar fara í rimlakassa og eru geymdar í bílskúrnum þar sem hitinn fer ekki niður fyrir 4°C. Gulrætur og annað rótargrænmeti er sett í kassa umlukið sandi og geymast á svölum stað. Káltegundir er gott að súrsa eða sjóða niður. Kálið gufusýð ég í 2-4 mínútur og snöggkæli undir kaldri vatnsbunu áður en ég set í frysti. Stilksellerí þurrfrysti ég. Krydd ýmist þurrka ég eða frysti í vatnsteningum. Fátt jafnast á við góðan vetraforða og aðgengi að eigin grænmeti.

Ekki bíða með að uppskera

Þau ykkar sem eru að rækta krydd og matjurtir hvet ég til að uppskera jöfnum höndum þegar jurtirnar eru sprottnar og ekki bíða þar til þær vaxa úr sér eða tréna. Taka utan með salatinu, klípa blöð af kryddinu og freistast til að fara undir kartöflugrösin og sækja í soðið eina og eina kartöflu. Fátt er betra en nýupptekið grænmeti og ferskt krydd. 

Blómlegt salat

Til að fegra og bragðbæta salatið og matinn er skemmtilegt að nota æt blóm í ýmsum litum. Stjúpur og morgunfrú ásamt skjaldfléttu, fjólu, begoníu og brúsku eru dæmi um æt blóm sem nota má. Svo getur maður valið litinn því kjósir þú bláan þá eru allar klukkur ætar og þar er hægt að velja úr bláum litatónum. Hér að ofan eru myndir af blómunum sem talin eru upp.

Smíðið með börnunum

Hluti af lífinu á sumrin er viðvera með börnum og ekki er úr vegi að föndra aðeins með þeim. Smíða skip úr viðarkubbum og sjósetja þá svo í heita pottinum eða dunda með stálpuðum krökkum við að hanna kassabíl og hjálpa til við að láta stýriskerfið virka.

Nýtið grasið til að kæfa arfann

Ef borinn er áburður á grasflötina 2-3 sinnum yfir sumarið verður flötin iðagræn og sprettan góð. Ég hvet ykkur til að nýta nýslegið grasið undir limgerðin og í safnhauginn. Einnig í kartöflugarðinn til að slá á illgresisvöxtinn, um 3-5 cm lag gerir það að verkum að ljósið nær ekki að næra illgresið. Limgerði má klippa yfir sumarið, fara með klippurnar eftir því og jafna vöxtinn er líða tekur á júlí.

 

Sá salati og spínati aftur og aftur

Njótið þess að rækta salat og spínat í sumar. Þessar tegundir eru auðveldar í ræktun og hægt er að sá til þeirra nokkrum sinnum yfir sumarið. Þá er líka flott að sá radísum en þær, eins og hinar tegundirnar, eru með stuttan vaxtartíma. Spínatið sprettur á 5-6 vikum, salat á 7-9 vikum og radísur þurfa um 5-8 vikur.

Mosi í görðum

Mosinn (Bryophyta) dafnar vel í sumarbyrjun. Hann vex við allt að 4°C hita og er því að spretta löngu áður en grasið fer af stað á vorin og verður þá áberandi í grasfletinum. Mosinn þrífst vel í skugga og þéttum jarðvegi. Ef mönnum líkar ekki mosinn þá er lag að raka hann úr sverðinum og setja í safnhauginn þar sem hann umbreytist í mold. Sé jarðvegurinn þjappaður þykir gott að stinga með stungugafli í svörðinn til að mynda holrými sem fyllt er með fínum sandi til að auka loftun í sverðinum. Svo er lag að kalka flötinn og bera á grasið alhliða áburð til að auka grassprettuna og efla ræturnar.