Mosi í görðum

Mosinn (Bryophyta) dafnar vel í sumarbyrjun. Hann vex við allt að 4°C hita og er því að spretta löngu áður en grasið fer af stað á vorin og verður þá áberandi í grasfletinum. Mosinn þrífst vel í skugga og þéttum jarðvegi. Ef mönnum líkar ekki mosinn þá er lag að raka hann úr sverðinum og setja í safnhauginn þar sem hann umbreytist í mold. Sé jarðvegurinn þjappaður þykir gott að stinga með stungugafli í svörðinn til að mynda holrými sem fyllt er með fínum sandi til að auka loftun í sverðinum. Svo er lag að kalka flötinn og bera á grasið alhliða áburð til að auka grassprettuna og efla ræturnar.

Sniglar

Maður getur verið að glíma við snigla allt sumarið en um þessar mundir eru þeir að klekjast úr eggjunum. Sniglar eru sólgnir í bjór og er bjórgildra árangursrík aðferð til að fækka sniglum. Grafin er dollu með bjór eða pilsner í moldina og falla sniglarnir ofaní og komast ekki uppúr. Þeir sækja í skugga og fúin fjöl er prýðis söfnunargildra eins sækja þeir í appelsínubörk og hægt að ganga að þeim vísum inni berkinum að degi til og þar er auðvelt að vitja þeirra og fjarlægja. Göngutúr í garðinum eftir klukkan tíu á kvöldin gæti líka verið árangursríkur en þá eru sniglarnir svangir í rekjunni og hægt að góma þá ofan á kálhöfði eða milli salatblaðanna. 

Æt Blóm og kryddplöntur

Fátt er betra en nýupptekið krydd beint úr garðinum á steikurnar, í pottrétti og í salöt ásamt ætum blómum. Sumarið er tíminn til að rækta krydd í pottum á svölunum, á pallinum eða úti í beði. Kaupið forræktaðar plöntur og raðið þeim saman og njótið þess að ná ykkur í ferskt krydd í matinn. Svo fegrið þið salatið með ætum blómum af skjaldfléttu, begoníu og brúsku og skreytið kökurnar með  fjólum og stjúpum. Möguleikarnir eru margir, kjósir þú bláan lit þá eru allar klukkur ætar og þar er hægt að velja úr bláum litatónum. Fjólublá blóm graslauksins eru æt og bera keim af graslauk, þau eru falleg með appelsínulituðum blómum morgunfrúarinnar í salatið.